Skattrannsóknarstjóri hefur hætt skattrannsókn á bókhaldi og skattskilum Björns Inga Hrafnsson athafna- og fjölmiðlamanns vegna tekjuáranna 2014 til 2017. Þetta kemur fram í bréfi frá embætti Skattrannsóknarstjóra sem Björn Ingi birtir á Facebook.

Björn Ingi segir að sér hafi reynst erfitt að sæta réttarstöðu sakbornings og kyrrsetningu eigna fyrir alþjóð. Nú muni hann skoða næstu skref með lögmanni sínum enda sé ljóst að undanfarin misseri hafi verið þungbær og tjónið sé mikið. RÚV bendir á að hinar kyrrsettu eignir séu 115 milljón króna virði.

„Ég mun auðvitað skoða næstu skref með lögmanni mínum, enda hafa undanfarin misseri ekki verið auðveld fyrir mig og tjónið er mikið," segir Björn Ingi.