Skattrannsókn á Jóni Sigurðssyni, forstjóra Stoða (áður FL Group), mun ekki hafa áhrif á stöðu hans sem forstjóra, samkvæmt upplýsingum frá stjórnarformanni félagsins.

Stoðir gengu í gegnum nauðasamninga í fyrra og er félagið í dag í eigu helstu kröfuhafa.

Tollstjórinn í Reykjavík krafðist í síðustu viku, að beiðni Skattrannsóknarstjóra, kyrrsetningar eigna Stoða að upphæð 650 milljónir vegna rannsóknar á bókhaldi félagsins á árunum 2005-2007.

Í framhaldinu var einnig krafist kyrrsetningar á eignum Jóns. Hann hefur mótmælt ásökunum skattrannsóknarstjóra og telur engin lög hafa verið brotin. Þess utan hafi hann einungis verið forstjóri félagsins í 27 daga þess tímabils sem rannsakað er.