Skattrannsóknarstjóra hafa verið boðnar upplýsingar um hundruð íslenskra félaga sem skráð voru í skattasjólum árin fyrir hrunið. Í Morgunblaðinu er fullyrt að embættinu hafi borist slík tilboð frá útlöndum og hafa engar ákvarðanir verið teknar um hvort semja eigi við þá aðila.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri staðfestir þetta en hún segir að bæði lagalegar og siðferðilegar spurningar vakni við ákvörðun um kaup á slíkum gögnum. „Við vitum ekki hverjir hafa þessi gögn í fórum sínum. Þeir koma fram undir dulnefndi og hafa samband við okkur í gegnum tölvupóst. Embættið gæti tæpast sjálft tekið ákvörðun um að kaupa slík gögn. Þó ekki kæmi til önnur ástæða en sú að til þess þyrfti fjármuni. Að einhverju leyti yrði slík ákvörðun því pólitísk,“ segir Bryndís í samtali við blaðið.