Starfsmenn skattrannsóknarstjóra réðust til inngöngu í húsnæði Stoða í dag og lögðu höld á bókhaldsgögn. Til rannsóknar eru hugsanleg brot á árunum 2005-7.

Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins.

Í yfirlýsingu frá stjórn Stoða vegna málsins segir að stjórnendur og starfsmenn Stoða hafi veitt starfsmönnum skattrannsóknarstjóra þær upplýsingar og þau gögn sem þeir báðu um. Stoðir muni jafnframt gera það sem í valdi fyrirtækisins stendur til að auðvelda skattrannsóknarstjóra vinnu sína.

„Fá fyrirtæki hafa verið meira á milli tannanna á fólki en FL Group, bæði á uppgangstímum fyrri ára sem og síðustu misserin þegar félagið hefur háð mikla varnarbaráttu. Að mati stjórnarinnar hefur stór hluti umræðu um málefni félagsins einkennst af sögusögnum og vanþekkingu. Rannsókn skattrannsóknarstjóra er því til þess fallin að eyða vafa um ákveðna þætti í rekstri félagsins sem sætt hafa gagnrýni. Stjórn Stoða og stjórnendur lýsa yfir fullum vilja til samstarfs við starfsmenn skattrannsóknarstjóra og vonast til að málið gangi sem hraðast fyrir sig,“ segir jafnframt í yfirlýsingu Stoða.