Embætt ríkisskattstjóra vísaði málefnum sex félaga sem ekki skiluðu ársreikningum vegna uppgjörsársins 2010 til frekari rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra. Samtals eiga 3.541 íslenskt félag eftir að skila ársreikningi sínum fyrir árið 2010 og 1.897 fyrir árið á undan.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Þar er bent á að félög þurfi að skila ársreikningum sínum eigi síðar en átta mánuðum eftir lok hvers reikningsárs. Það þýðir að félög áttu að skila inn uppgjöri fyrir árið 2010 í ágúst í fyrra.

Skili félag ekki ársreikningi sínum á tilskyldum tíma eru lagðar á það 250 þúsund króna fésekt. Hálf milljón bætist við sektina fyrir hvert ár sem ársreikningurinn skilar sér ekki.

Fésektum var fyrst beitt á félag vegna vanskila á ársreikningum uppgjörsársins 2009, að því er segir í blaðinu. Ákvörðun verður tekin um það í næsta mánuði um álagningu fésekta vegna uppgjörsársins 2010.