Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að skattrannsóknarstjóri hafi sjálfstæða skyldu til að leggja mat á virði eða mikilvægi gagna um aflandsfélög sem skráð eru í eigu Íslendinga í þekktum skattaskjólum. Þetta kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins.

Þar kemur fram að meti skattrannsóknarstjóri það svo að gögnin geti nýst embættinu við úrlausn mála sem það sinni og að mögulegt sé að skilyrða greiðslu til seljanda gagnanna þannig að þær nemi að hámarki tilteknu hlutfalli af innheimtu þeirra skattkrafna sem af gögnunum leiði sé ráðuneytið reiðubúið að tryggja þær fjárheimildir sem nauðsynlegar séu til að ráðast í öflun gagnanna, með eðlilegum fyrirvörum um samráð áður en til skuldbindinga er gengið.

Einnig kemur fram að ráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að skipa starfshóp sem muni skoða hvort ástæða sé til að taka upp svokölluð „Amnesty“ ákvæði í íslensk skattalög. Hópurinn muni jafnframt leggja mat á það hvort lagaheimildir skattayfirvalda til öflunar upplýsinga í baráttunni gegn skattsvikum séu fullnægjandi.

Hópurinn skilar niðurstöðum til ráðherra eigi síðar en 15. febrúar 2015, en í honum sitja þau Ása Ögmundsdóttir, Guðrún Jenný Jónsdóttir, Lísa K. Yoder og Guðni Ólafsson.