Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands segir að það verði að hafa í huga að á sama tíma og skatttekjur geta verið að aukast getur ástand þeirra skattstofna sem liggja að baki verið að veikjast. Í þessu sambandi megi nefna tekjur af vörugjaldi af bensíni og olíu, áfengi og tóbaki. Þessir skattar skili fleiri krónum í kassann til skemmri tíma en um leið dragast undirliggjandi skattstofnar verulega saman sökum samdráttar í sölu. Raunar sé samdrátturinn töluvert meiri en spár gerðu ráð fyrir.

„Ef þessi þróun er borin saman við spágerð fjárlaga þessa árs má sjá töluverðan mun. Í fjárlögum var t.a.m. gert ráð fyrir að skattar myndu aukast um 63 ma. kr. á þessu ári samanborið við fjárlög ársins 2009. Þá var jafnframt gert ráð fyrir að heildarútgjöld myndu haldast óbreytt. Fyrstu fjóra mánuði ársins hafa skatttekjur einungis hækkað um rúma 4 ma. kr. milli ára, en á sama tíma hafa gjöld hækkað um rúma 3 ma. kr. Erfitt er að sjá að ofangreind spá verði raunin miðað við þessa þróun," segir Finnur í aðsendri grein í Viðskiptablaði vikunnar. Þar fer hann yfir nýtt greiðsluuppgjör ríkissjóðs sem nú liggur fyrir.

Hættulegur vítahringur getur skapast

„Ekki verður hjá því komist að horfast í augu við það að þessi þróun er alvarleg fyrir ríkissjóð og samfélagið í heild. Fyrsta ár aðlögunaraðgerða hefur fyrst og fremst verið nýtt til aukinnar tekjuöflunar með viðamiklum breytingum á skattkerfinu. Rauntölur um þróun ríkisfjármála benda til að aðgerðirnar hafi ekki haft nægileg áhrif til batnaðar. Við blasir fjárlagagat til næstu þriggja ára sem þarf að brúa ef markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum eiga að nást.," segir Finnur.

„Auk þess eru merki um að auknir skattar hafi veikt til muna undirliggjandi skattstofna og ef stjórnvöld bregðast aftur við með frekari skattaálögum má leiða að því líkur að umsvif í hagkerfinu dragist enn frekar saman. Þannig getur skapast hættulegur vítahringur þar sem stjórnvöld vega að sjálfbærni hins opinbera með íþyngjandi skattastefnu."