Norsk skattayfirvöld uppgötvuðu nýlega undanskot á 3 milljörðum norskra króna úr sjávarútvegi landsins til skattaskjóla. Að sögn yfirvalda er sjávarútvegur landsins nú orðin nýtt leiksvið skipulagðrar glæpastarfsemi þar sem fiski er landað framhjá vigt og hann seldur til fyrirtækja sem leggja stund á svarta atvinnustarfsemi, sjómenn stinga launum sínum beint í vasann og þeim fjölgar sem þiggja aðstoð almannatrygginga, of háir reikningar eru sendir út og svindlað er á kvótum, t.d. með því að skrá afla sem aðrar tegundir en þær sem veiddar hafa verið, bókhald er ekki fært eða í það vantar mikilvægar upplýsingar, einkaútgjöld útgerðarmanna eru skráð á útgerðina og sportbátar eru skráðir sem fiskibátar. Frá þessu er greint í forsíðufrétt norska viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv nú í vikunni.

Alls gerðu norsk skattayfirvöld um 600 eftirlitsheimsóknir á síðasta ári í samstarfi við lögreglu, tollayfirvöld og fiskveiðiyfirvöld í landinu og komust m.a. að því að um 1,2 milljarðar norskra króna, um 24 milljarðar íslenskra króna, voru aldrei taldir fram sem tekjur af útgerðarfyrirtækjum auk þess sem tæpar 10 milljónir norskra króna voru svikin undan virðisaukaskatti. Þá var eignum að andvirði 1,8 milljarði norskra króna haldið frá skattinum að sögn DN .

„Myndin af litlu trillunni sem kemur í land og lætur vigta hluta aflans en selur afganginn á svörtum markaði er okkur ekki ókun,“ segir Sölvi Åmo Albrigtsen, yfirmaður hjá Skatt Nord, sem leiðir sjávarútvegsrannsókn norskra skattayfirvalda en það mun að sögn DN hafa komið yfirvöldum á óvart hve umfangsmikil starfsemin er orðin og hversu mikið hún minnir á skipulagða glæpastarfsemi. „Við sjáum tilhneigingu til þess að menn starfa með erlendum aðilum um það að fela hagnað eða eign eða jafnvel um peningaþvætti,“ segir Albrigtsen og bætir því við að skattayfirvöld hafi uppgötvað fjölda reikninga í löndum sem flokkast megi til skattaskjóla.

Ekki vilja þó allir kannast við að sú starfsemi sem að ofan er lýst eigi sér stað. Þeirra á meðal er Reidar Nilsen, formaður hagsmunasamtakanna Norges fiskarlag. „Það má oft deila um raunverulegt andvirði afla eða skipa. Ég hef ekkert á móti eftirliti en mín reynsla er sú að þær tölur sem kynntar hafa verið séu ekki í neinu samhengi við raunveruleikann. Mönnum hættir til að nota stór orð í þessu sambandi,“ segir Nilsen við DN.

ø