Tveir fyrrum stjórnendur stærsta tryggingarfélags Svíþjóðar, Skandia Foersaekrings, voru ákærðir fyrir skattsvik á föstudag, segir í frétt Dow Jones.

Annar þeirra, Lars-Eric Petersson, hefur þegar fengið tveggja ára fangelsisdóm fyrir fjársvik gagnvart fyrirtækinu.

Peterson er gefið að sök að hafa ekki greitt skatta af 32 milljónum sænskra króna (327 milljónum króna) sem hann fékk greitt frá Skandia á árunum 1999 og 2000, þetta kom fram í gögnum sem lögð voru fyrir héraðsdóm Stokkhólms.

Peterson var rekin frá fyrirtækinu í apríl 2003, en hann var dæmdur nú í maí fyrir að hafa greitt út 156 milljónir sænskra króna (1,6 milljarð króna) í kaupauka til stjórnenda fyrirtækisins án samþykkis framkvæmdarstjórnar, en hann hyggst áfrýja dómnum.

Öðrum fyrrun stjórnanda Skandia, Ulf Spang, er þá gefið að sök að hafa ekki greitt skatta af 20,7 milljónum sænskra króna (212 milljónum króna) sem hann fékk greitt frá Skandia á árunum 1999 og 2000.

Tryggingarfélagið, sem stofnað var fyrir 150 árum, hlaut mikla gagnrýni árið 2003 vegna stórra kaupauka til stjórnenda, vafasamra tengsla við líftryggingarfélagið Skandia Liv og fyrir að hafa úthlutað lúxus-íbúðum til nokkurra stjórnenda fyrirtækisins.