Íslensk skattayfirvöld hafa þegar fengið upplýsingar í gegnum upplýsingaskiptasamninga við erlend ríki sem skipt hafa verulegu máli við rannsókn mála. Kom þetta fram í máli Bryndísar Kristjánsdóttur, skattrannsóknarstjóra, á fundi Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík, um skattaskjól.

Hún sagði dæmi um slíkt upplýsingar um greiðslukortanotkun íslenskra einstaklinga, sem eigi bankareikninga erlendis. Bryndís benti á að í sumum tilvikum hafi þessar upplýsingar upplýst um umfangsmikil skattaundanskot, jafnvel upp á hundruð milljóna króna. Hins vegar sagði hún að ekki sé allt dans á rósum í tengslum við þessa upplýsingaskiptasamninga. Mikil skriffinska fylgi þeim og þá séu ríkin ekki alltaf sammála um efni þeirra.

Sagði hún t.d. að Bresku Jómfrúreyjar vilji meina að upplýsingar, sem verði til fyrir gildistöku samningsins, falli ekki undir hann. Þá séu umbeðnar upplýsingar ekki alltaf til. Til lítils sé að biðja Bresku Jómfrúreyjar um bankaupplýsingar fyrirtækis, sem þar er skráð, ef viðkomandi bankareikningur er í Lúxemborg.