Efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar hefur til rannsóknar eitt umfangsmesta skattsvikamál sem komið hefur upp í Danmörku. Þetta kemur fram á vef Börsen.

„Ég man ekki eftir, að hafa heyrt um afbrotamál, þar um er að ræða svo háa upphæð" segir Lars Bo Langsted prófessor í efnahagsbrotum við Álaborgarháskóla í samtali við blaðið.

Erlend félög eru talin hafa svikið allt að 6,2 milljarða danskra króna, jafnvirði 122 milljarða íslenskra króna, frá danska ríkinu á árunum 2012-2015.

Við útgreiðslu á arði úr hlutafélögum er félögunum skylt að halda eftir 27% fjármagnstekjuskatti, með svipuðum hætti og íslenskum hlutafélögum nema hér á landi er hlutfallið 20%.

Erlendir hluthafar geta átt rétt á grundvelli tvísköttunarsamninga að fá hluta eða allan skattinn endurgreiddan en er þá skylt að greiða skatta í heimalandinu.

Um 2.100 mál eru nú til rannsóknar þar sem erlendir aðilar eru taldir hafa látist eiga bréf í dönskum hlutafélögum sem þau áttu ekki. Þau hafi hins vegar sýnt fram á það með gögnum gagnvart danska skattinum og fengið skattinn af arðinum „endurgreiddan“.

Rannsókn hófst í sumar vegna ábendinga erlendra skattyfirvalda.