Mikil umsvif í hagkerfinu endurspeglast í sterkri stöðu ríkissjóðs um þessar mundir. Hreinar skuldir hafa lækkað mikið og eru innan við 10% af landsframleiðslu síðasta árs, segir greiningardeild Íslandsbanka, og væntir þess að afgangur verði af rekstri ríkissjóðs í ár. Aftur á móti má búast við nokkrum halla á rekstrinum á næsta ári.

Skatttekjur af fjármagnstekjum jukust um 81% á milli ára og námu alls tæpum 18 milljörðum króna á árinu.

Skatttekjur ríkissjóðs jukust um rúmlega 20% á milli ára og námu alls 315 milljörðum króna.

Engin erlend lán voru tekin á árinu en 48 milljarðar af erlendum skuldum voru greidd niður.

Skatttekjur af tekjum lögaðila jukust um 41%, en tekjuskattur einstaklinga
skilaði rúmlega 10% meiri tekjum í ríkiskassann en árið áður og aukning tryggingagjalda milli ára nam 16%.

Launavísitalan hækkaði um 6,8% á sama tímabili.

Aukning í greiddum stimpilgjöldum jókst um 43% og innheimt vörugjöld af ökutækjum voru tæplega 70% meiri miðað við árið áður. Tölurnar endurspegla aukningu bílainnflutnings og líflegan fasteignamarkað á nýliðnu ári, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Virðisaukaskattur er stærsti tekjustofn ríkisins og jukust tekjur af honum um 22% á milli ára. Þær námu alls 111 milljörðum króna.