Handbært fé frá rekstri batnaði verulega á milli ára, það var jákvætt um 19,4 milljarða á tímabilinu. Þetta kemur fram í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir janúar-júlí 2016. Það var hins vegar neikvætt upp á 52,7 milljarða á sama tíma árið 2015.

Kemur fram í tilkynningu frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu að þetta skýrist að stærstum hluta með tekjum af stöðugleikaframlögum á árinu 2016. Þau námu 68 milljörðum á tímabilinu.

Skatttekjur á einstaklinga jukust um 21,5% frá því í fyrra. í fyrra nam tekjuskattur á einstaklinga 68,65 milljarða en á sama tíma á þessu ári kemur fram að skatttekjur á einstaklinga námu rúmum 83 milljörðum. „ Aukningin  skýrist  fyrst  og  fremst af  almennum  launahækkunum  og  meiri  atvinnu“ segir í greiðsluafkomunni .

Skattar á tekjur og hagnað almennt á fyrstu sjö mánuðum ársins námu 132 milljarða og jukst um 4,5% milli ára.

Handbært fé lækkar um 96,9 milljarða miðað við lækkun um 85 milljarða á árinu 2015. Þetta skýrist að mati ráðuneytisins af afborgunum lána, en þau námu 125,8 milljörðum á tímabilinu.