Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur samþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2005. Ljóst er að tekjur sveitarfélagsins á næstu árum eiga eftir að aukast stórlega og nægir þar að geta um þau áhrif sem starfsmannaþorp Bechtel á Haga færir í formi útsvarstekna í samfélagið. Reiknað er með að í þorpinu verði komnir undir árslok 2005 um 1.200 manns og verða þeir hluti samfélagsins ásamt þeim sem setjast að til lengri tíma. Skatttekjur sveitarfélagsins munu því aukast um 264 milljónir kr.

Bæjarstjórn samþykkti að beitt yrði sérstöku aðhaldi með því að setja stofnunum og málaflokkum sparnaðarmarkmið að fjárhæð 40 milljónir kr. Með þvi móti er sýnt framá nauðsyn þess að rekstri sé haldið innan marka þannig að auknar tekjur renni til greiðslu framkvæmda en ekki rekstrarkostnaðar. Bæjarstjóra ásamt yfirmönnum sveitarfélagsins er falið vinna að þessum markmiðum og skila tillögum að sparnaði til bæjarráðs. Rekstur aðalsjóðs er áætlaður 93,8 % af skatttekjum sem er algjör viðsnúningur frá síðasta ári en þá var hann upphaflega áætlaður 104,15 %.