Bæjarstjórn Hveragerðis hefur samþykkt fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2005. Fjárhagsáætlun Hveragerðis fyrir árið 2005 gerir ráð fyrir að heildartekjur bæjarsjóðs og fyrirtækja sveitafélagsins verði 778,5 milljónir, en þar af eru skatttekjur rúmar 613 milljónir eða 79% af tekjum. Rekstrargjöld samstæðu með afskriftum og fjármagnsliðum nema alls 778 og tekjuafgangur rekstrarreiknings óverulegur.

Sé hinsvegar tekið tillit til reiknaðra stærða í sjóðsteymi samstæðu er veltufé frá rekstri áætlað 83 milljónir sem eru um 10% af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri er áætlað rúmlega 150 milljónir en þar af eru 67,5 milljónir sem koma inn vegna sölu á hitaveitu. Handbært fé í árslok 2005 er áætlað rúmar 72 milljónir.

Skatttekjur sveitarfélagsins hækka á milli ára um 13% miðað við endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir árið 2004. Álagning útsvars er nú að fullu nýtt og er 13,03% sem gefur sveitarfélaginu um 1,5 milljónir í tekjuaukningu. Þjónustugjöld, leikskólagjöld og álagningarhlutfall fasteignagjalda til einstaklinga er óbreytt að teknu tilliti til vísitölu. Álagningarhlutfall fasteignagjalda til fyrirtækja hækkar úr 1,41% í 1,6%. Álagningarhlutfall vatnskatts hjá fyrirtækjum lækkar úr 0,19% í 0,16% en á móti er stefnt á upptöku aukavatnsgjalds frá fyrirtækjum frá og með 1. júní 2005 til að koma í veg fyrir sírennsli og stuðla að bættri nýtingu vatns í bæjarfélaginu.

Stærstum hluta rekstrarútgjalda, eða rúmlega 314 milljónum, er varið til fræðslu og uppeldismála. Aðrir málaflokkar sem taka mikið til sín í rekstri eru æskulýðs- og íþróttamál með 75 milljónir, sameiginlegur kostnaður með 78 milljónir, félagsþjónusta 40 milljónir og umhverfis-, samgöngu- og skipulagsmál með 51 milljón.

Í frétt á heimasíðu Hveragerðisbæjar kemur fram að gripið verður til ýmissa aðhaldsaðgerða í áætluninni til að mæta þungri fjárhagsstöðu bæjarins undanfarin ár. Ekki verður ráðið í ýmsar stöður sem losnað hafa hjá bæjarfélaginu undanfarið auk þess sem skipulagsbreytingar munu spara nokkuð í starfsmannahaldi. Þá er dregið úr framlögum til ýmissa smærri rekstrarþátta og samanlagt skila þessar aðhaldsaðgerðir um 30 milljón króna sparnaði í áætluninni.

Óverulegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í bæjarfélaginu árið 2005 ef frá eru skildar gatnagerðarframkvæmdir. Gert er ráð fyrir að tekjur inn á þær framkvæmdir geri lántöku óþarfa og því er ekki gert ráð fyrir nýrri lántöku á árinu. Áætlunin gerir ráð fyrir að langtímalán lækki um 46 milljónir króna árið 2005.