Skatttekjur ríkissjóðs árið 2010 eru áætlaðar 412,5 milljarðar króna á verðlagi ársins í ár og hafa hækkað um 29,2 milljarða króna frá árinu 2009. Á föstu verðlagi ársins 2009 hafa þær hækkað um tæpa sex milljarða króna. Þetta kemur fram í útreikningum á skatttekjum ríkissjóðs sem lagðir verða fram með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011. Fyrirhugað er að það verði lagt fram í byrjun október næstkomandi.

Í útreikningunum kemur einnig fram að áætlað sé að skatttekjur verði 443 milljarðar króna á næsta ári og hækki þar með um rúma 30 milljarða króna á milli ára. Sú hækkun er þó öllu lægri þegar hún er skoðuð á föstu verðlagi ársins 2009, eða um 14,6 milljarðar króna. Inni í þeirri hækkun er áætlun ríkisstjórnarinnar um að ná fram 11 milljarða króna tekjuaukningu á næsta ári með aukinni skattlagningu.

30 milljarða niðurskurður

Alls þarf að fylla upp í fjárlagagat sem nemur rúmlega 40 milljörðum króna á árinu 2011. Ríkisstjórnin stefnir að því að um 30 milljarðar króna sparist með niðurskurði hjá hinu opinbera. Meginlínur þess niðurskurðar eru þær að háskólum landsins verður gert að komast að með 7,5% minna fé en í ár, löggæsla og velferðarmál verða skorin niður um 5% og stofnanir ráðuneyta og stjórnsýslu fá 9% minna fé til að moða úr.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .