Breyting á handbæru fé frá rekstri ríkissjóðs var jákvæð um 27,5 milljarða króna á fyrri helmingi ársins 2008, sem er 4,1 milljarði lakari útkoma en í fyrra. Tekjur hækkuðu um 7,5 milljarða króna milli ára og námu 225,5 milljörðum króna á meðan gjöld hækkuðu um 22,9 milljarða. Hreinn lánsfjárjöfnuður er nú jákvæður um 26 milljarða króna.

Skatttekjur og tryggingagjöld námu 206 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs og drógust saman um 2,4% að raunvirði milli ára. Aðrar rekstrartekjur jukust um 16,4% milli ára, en mest var aukningin í vaxtatekjum af skammtímalánum ríkissjóðs.

Tekjuskattur einstaklinga nam um 46 milljörðum króna og tekjuskattur lögaðila rúmlega 12,5 milljörðum. Fjármagnstekjuskattur nam tæplega 26 milljörðum króna.

Virðisaukaskattur skilaði ríkissjóði rúmlega 65,5 milljörðum króna á tímabilinu og nam raunlækkun hans milli ára 6%.

Greidd gjöld ríkissjóðs á fyrri helmingi ársins voru 198,3 milljarðar króna og hækkuðu um 13,1%.

Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins.