Á fyrstu níu mánuðum ársins voru innheimtar tekjur ríkissjóðs rúmlega 335,8 milljarðar króna sem er 28,5 milljarða aukning frá sama tímabili í fyrra og 12,9 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka en þar kemur fram að þrátt fyrir þessa aukningu frá áætlun fjárlaga eru skatttekjur og tryggingagjöld undir þeirri áætlun enda skýrist þessi mismunur á innheimtum tekjum ríkissjóðs einkum af hagnaði vegna Aven-samkomulagsins, sem var ekki inn í áætlun fjárlaga.

Þannig námu skatttekjur og tryggingagjöld ríkissjóðs 292,8 milljörðum króna sem er 8,9% aukning að nafnvirði frá sama tímabili í fyrra en 1,5% undir tekjuáætlun fjárlaga. Frá þessu var greint í fréttatilkynningu sem fjármálaráðuneytið birti fyrr í vikunni um greiðsluafkomu ríkissjóðs á tímabilinu janúar til september 2010.

Greining Íslandsbanka segir að það komi ekki á óvart að tekjur ríkissjóðs, þ.e. að Avens samkomulaginu undanskildu, hafi verið undir áætlun enda hafi bati efnahagslífsins dregist á langinn og minni efnahagsumsvif hafa augljóslega neikvæð áhrif á tekjustofna ríkissjóðs. Auk þess sé ljóst að þær aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn hafi ráðist í sem hafa haft það að markmiði að auka skattheimtu hafi sumar hverjar ekki borið þann ávöxt sem reiknað var með.

Þannig nefnir greiningardeildin að allir þeir liðir sem falla undir skatttekjur ríkissjóðs af tekjum og hagnaði séu undir áætlun, en sem kunnugt er tók þessi hluti skattheimtunnar þó nokkrum breytingum um síðustu áramót. Þannig var innleitt þriggja þrepa tekjuskatterfi sem hafi í heildina litið aukið skattbyrði á heimilin í landinu, og svo var tekjuskattur á lögaðila og skattur á fjármagnstekjur hækkaður úr 15% í 18%.

„Eins og áður er getið eru þessir liðir að skila mun minni tekjum en reiknað var með í fjárlögum sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins. Þannig er tekjuskattur einstaklinga 9% undir áætlun, tekjuskattur lögaðila 4% undir og skattur af fjármagnstekjum 7% undir,“ segir í Morgunkorni.

Þó kemur fram að virðisaukaskattur hafi skilað meiru en reiknað var með í tekjuáætlun fjárlaga og nemur mismunurinn um 4,3%, en sem kunnugt er hækkaði efra skattþrep hans úr 24,5% í 25,5% um síðustu áramót.

Sjá nánar í Morgunkorni.