Yfirskattanefnd sendi nýverið mál aftur í hausinn á Skattinum þar sem það hafði ekki verið rannsakað nægilega áður en ákvörðun var tekin í því. Þrætuefni málsins var hvort listaverk sem fjárfestingafélag hafði keypt, teldust dulinn arður til eiganda þess eður ei.

Kærandi í málinu var eigandi eignarhaldsfélags en heimilisfang þess og starfsstöð var hið sama og eigandans. Það hafði þó einnig annað afdrep á öðrum stað. Á árunum 2014 og 2015 keypti félagið listaverk fyrir rúmlega 4,2 milljón krónur samanlagt. Taldi Skatturinn að umrædd listaverk hefðu ekkert með tilgang og starfsemi félagsins að gera og því væri um að ræða ólögmæta úthlutun úr félagi til eiganda þess. Færði Skatturinn því nefnda upphæð eigandanum til tekna og bætti við 25% álagi á skattstofninn.

Þessu vildi félagið og eigandi þess ekki una. Í kærunni sagði að það væri eignarhaldsfélag sem stundaði fjárfestingastarsemi, bæði innanlands og erlendis, og keypti það jafnt hlutabréf, skuldabréf, framvirka samninga, afleiður, fasteignir, lóðir og svo framvegis. Kaupin á verkunum hefði verið liður í því að dreifa áhættu enda hefðu verið valin verk sem þættu líkleg til að skila arði til lengri tíma litið.

Verkin hækkað um 70-90%

„Alkunna væri að fyrirtæki og stofnanir ættu listmuni og jafnvel væri talið að það félli undir samfélagslega ábyrgð að styðja við menningu í landinu. Að auki féllu slík kaup að tilgangi [félagsins] varðandi arðvænlegar fjárfestingar, en jafnframt var tekið fram að listaverk þessi væru mjög óverulegur hluti af eignum félagsins, eða um 0,5%. Listaverk héldu oftast verðgildi sínu mjög vel og teldust til áhættulítilla fjárfestinga,“ sagði í samskiptum félagsins við Skattinn.

Skatturinn benti á móti á að slík rök gengju ekki upp enda útskýrði það ekki hví tiltekið verk væri valið fram yfir annað. Ekki væri loku fyrir það skotið að kaupin á umræddum verkum tengdust smekk eigandans og hefði það ekkert með mögulega arðbærni þeirra að gera. Félagið benti á móti á að samkvæmt mati Gallerí Foldar hefðu verkin hækkað um 70-90% frá því þau voru keypt.

Í málinu byggði Skatturinn á úrskurði frá 2019 sem fordæmi í málinu en félagið sagði að atvik þar hefðu verið allt önnur. Fyrir það fyrsta hefði það ekki verið fjárfestingafélag og þá hefðu listaverkin verið allt sautján en ekki þrjú. Virði þeirra hefði verið rúmlega 16 milljónir en ekki fjórar. Þá var sá munur á málunum að verkanna var getið í eignaskrá í þessu tilviki en því var ekki til að dreifa í hinu.

„Þar hafi skýrum skjöplast“

Í úrskurði yfirskattanefndar segir að Skatturinn hafi gengið út frá þeirri forsendu í málinu að kaupin hefðu verið gerð beinlínis í þágu eiganda félagsins. Ekkert lægi fyrir annað af hálfu Skattsins en að verkin hefðu prýtt heimili hans og að engar rekstrarlegar forsendur væru fyrir kaupunum.

Nefndin féllst hins vegar á það með eigandanum að fyrri úrskurður hefði ekki fordæmisgildi enda hefðu atvik þar verið önnur. „[V]irðist ríkisskattstjóri telja álitamálum um listaverkakaup einkahlutafélaga nánast svarað að öllu leyti með niðurstöðu [eldri úrskurðarins]. Eins og fram er komið verður að telja að þar hafi skýrum skjöplast,“ segir í úrskurðinum.

„Eins og máli þessu er farið verður að telja að meginþýðingu hafi hvernig háttað var notkun þeirra málverka sem um ræðir. Var nauðsynlegt að ríkisskattstjóri aflaði upplýsinga og gagna um þetta atriði til að geta ákveðið hvort tilefni væri til að hagga við skattskilum kæranda eða ekki. Gildir þá einu hvort heldur hann kynni að telja rétt að fella málið í þann farveg sem gert var eða að skattgilda hjá kæranda þau gæði sem fólgin væru í endurgjaldslausum afnotum listaverka í eigu einkahlutafélags hans,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Að mati nefndarinnar bar Skattinum að kanna hvar umrædd verk voru niðurkomin og hvernig starfsaðstöðu var háttað á heimili eiganda þess. Voru verkin til að mynda geymd í sérgreindum hluta hússins eða var á ferð venjuleg heimaskrifstofa í tengslum við annað rými? Þau svör lágu ekki fyrir í málinu og þar með brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins.

Úrskurðurinn var því felldur úr gildi og málið sent aftur til Skattsins. Málskostnaðarkröfu eigandans, sem hljóðaði upp á 2,1 milljón króna, var aftur á móti hafnað þar sem reikningar innihéldu einnig aðkeypta vinnu við meðferð málsins hjá Skattinum. Fyrir nefndinni hafði eigandinn hins vegar flutt málið sjálfur og því kom ekki til greiðslu málskostnaðar.