Embætti ríkisskattstjóra hefur sótt ársreikninga 30-40 félaga í eigu Íslendinga sem skráð eru í Lúxemborg með það fyrir augum að skattleggja arð og söluhagnað hlutabréfa sem runnið hafa til félaganna. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins telur embættið að viðkomandi félög hafi ekki greitt skatt vegna þessara tekna samkvæmt íslenskum lögum. Það ætlar því að stefna eigendum þessara félaga til að fá tæmandi upplýsingar um þær eignir sem geymdar eru í Lúxemborg og reyna í kjölfarið að fá vangreiddan skatt til baka. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að upphæðirnar gætu hlaupið á hundruð milljónum króna hið minnsta.

Skattskyldar tekjur

Embætti ríkisskattstjóra hefur unnið að því frá haustinu 2009 að greina eignarhald félaga sem skráð eru á utangarðsskrá embættisins. Þar eru skráð öll erlend félög sem hafa fengið úthlutað kennitölu á Íslandi til að geta stundað fjármagnshreyfingar erlendis frá hingað til lands.

Tilgangur rannsóknarinnar er sá að kanna hvort einhver þessara erlendu félaga, sem eru í eigu Íslendinga, hafi haft fjárfestingartekjur af íslenskum eignum, til dæmis hlutabréfum. Þær tekjur væru þá annaðhvort í formi söluhagnaðar eða arðgreiðslna. Ríkisskattstjóri lítur svo á að slíkar tekjur séu skattskyldar á Íslandi en embættið grunar að ekki hafi verið unnið samkvæmt þeim skilningi í mörgum félögum sem áttu íslenskar eignir en voru skráð erlendis.

Neita að gefa upplýsingar

Alls voru 419 félög í rannsókn ríkisskattstjóra. Upphæðirnar sem er að finna inni í aflandsfélögunum eru frá 20 milljónum króna og upp í nokkra milljarða króna. Hluti þeirra reyndist ekki starfandi og var því undanskilinn rannsókninni. Embættið hefur þegar greint eignar hald á annað hundrað félaga.

Af þeim var talið að á bilinu 30 til 40 hefðu haft fjárfestingartekjur vegna íslenskra eigna sem ættu að vera skattskyldar hérlendis. Þau eru að mestu skráð í Lúxemborg, þar sem þau voru stofnuð af dótturfélögum gömlu bankanna þar í landi fyrir viðskiptavini í einkabankaþjónustu þeirra.

Eigendur þessara félaga hafa ekki viljað veita neinar upplýsingar um félögin þrátt fyrir skriflegar beiðnir ríkisskattstjóra um þær. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu var því ákveðið að kaupa ársreikninga félaganna sem skilað var inn til fyrirtækjaskráar í Lúxemborg nokkur ár aftur í tímann til að átta sig á umfangi tekna þeirra.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.