Með nýsamþykktum lögum Alþingis um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda lækkar tekjuskattur í tveimur áföngum, um áramótin komandi, 1. janúar 2020 og aftur 1. janúar 2021. Viðskiptablaðið fjallaði um breytingarnar um miðjan september síðastliðin þar sem bent var á að erfitt væri að gera mat á nákvæmum áhrifum skattkerfisbreytinganna vegna vísitölutenginga.

Á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur verið reynt að gera auðveldara að skoða áhrifin á eintaklinga með svokallaðri  reiknivél tekjuskatts . Þar segir jafnframt að ábatinn skili sér til allra tekjutíunda, en mest til þeirra tekjulægstu. Tekjuskattur þess hóps er sagður lækka um rúmlega 120 þúsund krónur á ári, en lækkunin er sögðu einn grundvalla lífskjarasamninganna svokölluðu.

Á næsta ári nemur lækkun skattgreiðslna þeirra sem eru við fyrstu þrepamörk tekjuskattsins um 42 þúsund krónur. „Þá hefur verið tekið tillit til lækkunar persónuafsláttar sem beitt er í samspili við upptöku nýs lægsta þreps, til að beina þunga lækkunarinnar til þeirra sem eru um eða undir meðaltekjum,“ segir þar að auki.

„Auk lækkunar tekjuskatts kemur til framkvæmdar seinni hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingagjalds, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019.Tryggingagjaldsprósentan með markaðsgjaldinu og gjaldi í ábyrgðarsjóð launa hefur farið úr 7,59% 2014 í 6,60%  2019 og verður 2020 6,35% sem styður við atvinnusköpun og rekstrargrundvöll fyrirtækja. Hæst var prósentan 8,65% árin 2010 og 2011.“

Dæmi úr reiknivélinni:

  • Tekjur 280.000 á mánuði  - tekjuskattur lækkar um 69.792 á ári.

Viðkomandi greiðir eftir breytinguna engan tekjuskatt til ríkisins því persónuafsláttur verður hærri en álagður tekjuskattur. Öll hans staðgreiðsla fer til sveitarfélagsins. Skattbyrðin fer úr 14,5% í 12,4%.

  • Tekjur 370.000 á mánuði - tekjuskattur lækkar um 124.620 á ári.

Skattbyrðin lækkar úr 20,5% í 19,5%.

  • Tekjur 835.000 á mánuði - tekjuskattur lækkar um 72.000 kr.á ári.

Skattbyrðin lækkkar úr 29,4% í 28,7%.