*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 19. september 2021 17:34

Skatturinn skoðar kauprétti Kviku

Áskriftarréttindi til starfsmanna Kviku hafa verið til skoðunar hjá skattyfirvöldum.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Skattyfirvöld hafa haft til skoðunar skattskil vegna áskriftarréttindakerfis Kviku banka. Þrætuepli málsins lýtur að því hvort umrædd réttindi skuli skattleggjast sem laun eða fjármagnstekjur. Þetta staðfestir Marinó Örn Tryggvason, bankastjóri Kviku, við Viðskiptablaðið.

Tæp þrjú ár eru liðin frá því að eldra kerfi bankans, sem fólst í útgáfu B-hluta til lykilstarfsmanna, var álitið fela í sér skattskyldar tekjur og að greiðslur á þeirra grunni því ekki skattlagðar sem fjármagnstekjur. Þar áður hafði Fjármálaeftirlitið gert bankanum að greiða sekt vegna brota á reglum sem gilda um kaupauka. Lögum samkvæmt mega þeir ekki vera hærri en 25% af árslaunum.

Í framkvæmd hefur verið litið svo á að greiðslur, í formi áskriftarréttinda, á borð við kaup- eða sölurétti, eða úthlutun réttindalægri hlutabréfa, skuli skattleggja sem laun ef talið er að þær séu veittar í tengslum við starf viðkomandi. Í úrskurðum sem hafa fallið um efnið hefur meðal annars verið litið til þess hvort réttindin séu framseljanleg eða bundin við persónu þess sem í hlut á.

Heimildir blaðsins herma að könnun skattyfirvalda taki ekki til núgildandi áskriftarréttindakerfis heldur eldra kerfis sem samþykkt var í október 2016. Um fámennan hóp lykilstarfsmanna sé að ræða sem hafi notið þeirra. Heimild Skattsins til endurákvörðunar opinberra gjalda nær sex ár aftur í tímann.

Auðvelt að þrefalda réttinn

Títtnefnt fyrirkomulag hefur aftur á móti verið aflagt. Núgildandi kerfi var komið á laggirnar árið 2017 en samkvæmt því hafa kaupréttir fyrir um 700 milljón krónur að nafnvirði verið gefnir út. Fyrir réttindin hefur að jafnaði þurft að greiða þriðjung af nafnvirði. Samkvæmt upplýsingum í útboðslýsingu og ársreikningum Kviku er heimilt að færa sér þá í nyt til ársloka 2022.

Réttindin veita heimild til að kaupa hluti í bankanum á fyrirfram ákveðnu gengi. Dæmi um slíkt má til að mynda sjá í tilkynningum til Kauphallarinnar á föstudag þar sem tveir stjórnendur innleystu rétt sinn á genginu 7,19 en seldu jafnharðan á genginu 23,6.

Fyrstu kaupréttirnir voru gefnir út í september 2017 en næsti skammtur í desember sama ár. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að slík útgáfa hafi jafnan farið fram í hvert sinn sem nýir framkvæmdastjórar eða forstöðumenn sviða tóku við starfi. Þau sem fengu úthlutað sama ár í desember hafa til að mynda kost á að leysa hlutina til sín á verðbilinu 7,83-9,04, samkvæmt upplýsingum skráningarlýsingu Kviku. Alls voru gefin út réttindi fyrir 22 milljón nafnvirðishlutum í þeim mánuði og hefur hluti þeirra verið nýttur á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Oddviti Samfylkingar í Reykjavík suður

Í hópi þeirra sem hóf störf í bankanum í þeim mánuði er Kristrún Frostadóttir, nú oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður en þá nýr aðalhagfræðingur Kviku. Viðskiptablaðið reyndi að ná á hana til að spyrja hvort og þá hvenær hún hefði nýtt sér sinn kauprétt og að endingu hvort greiddur hefði verið fjármagnstekjuskattur af hagnaðinum eða almennur tekjuskattur. Ekki hefur náðst í Kristrúnu við vinnslu fréttarinnar.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru umrædd áskriftarréttindi eilítið frábrugðin málum þar sem skattyfirvöld hafa talið „kaupauka hafi verið klædda í búning hlutabréfaviðskipta“. Sá blæbrigðamunur birtist til að mynda í því að umræddir kaupréttir eru framseljanlegir en ekki bundnir við persónu hvers og eins starfsmanns. Þannig hafi einhver viðskipti átt sér stað með þá frá útgáfu þeirra. Af þeim sökum gæti verið erfiðara að færa fyrir því rök að þau skuli skattleggjast sem laun en ekki fjármagnstekjur.

Samkvæmt hálfsársuppgjöri Kviku þetta árið eru útistandandi réttindi fyrir tæplega 296 milljón hluti. Hámarksverð sem greitt verður fyrir þá er á bilinu 7,74-15,36 eftir því hvenær kauprétturinn var veittur. Eigendur umræddra kauprétta voru 114 talsins um mitt þetta ár.

Leiðrétting Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var ranghermt að Magnús Már Leifsson væri yfirlögfræðingur Kviku en hið réttar er að hann er yfirlögfræðingur Kviku eignastýringar. Fréttinni hefur verið breytt vegna þessa.

Marinó Örn Tryggvason staðfestir við Viðskiptablaðið að erindi hafi borist vegna eldri áskriftarréttinda en segir jafnframt að engin slík erindi hafi borist vegna nýrra kerfisins. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um persónuleg málefni núverandi eða fyrrverandi starfsmanna bankans.