Skaturinn hefur farið fram á að félagið Tomahawk framkvæmdir ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta. Í Lögbirtingablaðinu í dag  er skorað á Magnús Ólaf Garðarsson, fyrirsvarsmann félagsins, að mæta fyrir dóm þann 23. febrúar og haldi uppi vörnum ef einhverjar eru ella verði félagið tekið til gjaldþrotaskipta.

Tomahawk framkvæmdir hefur ekki skilað ársreikningi frá árinu 2016. Þá var það dótturfélag Tomahawk Development ehf. sem hefur þegar verið lýst gjaldþrota en það var um tíma aðaleigandi United Silicon, sem rak kísilver í Helguvík. Magnús var í forsvari fyrir verkefnið en United Silicon var lýst var gjaldþrota í janúar 2018 eftir skammvinnan rekstur sem einkenndist af stöðugum skakkaföllum. Magnús var í kjölfarið kærður til héraðsasksóknara og stefnt persónulega vegna meintra fjársvika tengdum United Silicon.

Sjá einnig: Berst með kjafti og klóm gegn fjárnámi

Í dómsmáli sem Arion banki höfðaði gegn honum og var flutt fyrir ári kom fram að fjölmargar tilraunir hefðu verið gerðar til að birta Magnúsi stefnu, m.a. í Danmörku og á Spáni. Magnús var lýstur persónulega gjaldþrota í Danmörku í október síðastliðnum.

Arion banki hefur frá árinu 2018 unnið að endurbótum á kísilverinu og vill selja það. Í síðustu viku greindi Kjarninn frá því að PCC hefði skrifað undir viljayfirlýsingu við Arion banka um kaup á kísilverinu. PCC rekur einnig kísilver á Bakka við Húsavík.