Samkeppniseftirlitið (SKE) segir að Viðskiptaráð Íslands (VÍ) fari ekki í öllum tilvikum með rétt mál þegar fullyrt sé að samkeppnislöggjöf hér á landi sé í ýmsum tilvikum meira íþyngjandi hér á landi en á öðrum Norðurlöndum. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hjá stjórnvaldinu á Facebook.

Á fimmtudag birti VÍ yfirlit yfir dæmi þar sem samkeppnislög hér á landi eru strangari en í nágrannaríkjum okkar. Var þar meðal annars bent á að SKE geti gripið inn í rekstur fyrirtækja óháð því hvort brotið hafi verið gegn lögunum og að SKE hafi að meginreglu heimild til að haldleggja gögn við rannsókn máls. Þá hefur SKE heimild til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla, heimild sem norræn samkeppnisyfirvöld hafa ekki, og að SKE þurfi að veita fyrirtækjum undanþágu til að hefja samstarf í stað þess að aðeins þurfi að tilkynna um slíkt samstarf.

„Í umfjöllun VÍ [á fimmtudag] er ekki farið með rétt mál í ýmsum tilvikum þegar fullyrt er að samkeppnislöggjöf hér á landi sé í tilteknum atriðum strangari og meira íþyngjandi en hjá nokkru hinna Norðurlandanna,“ segir í stöðuuppfærslu SKE.

Ekki er vikið að því nánar hvað í máli VÍ sé rangt. Þær upplýsingar verði dregnar saman síðar og einnig gerður samanburður við samkeppnisreglur annars staðar í Evrópu. Upplýsingarnar verði birtar í tengslum við umsögn SKE við frumvarpsdrögin.

„Þetta er mikilvægt til þess að tryggja að umræður um samkeppnislögin og mögulegar breytingar á þeim geti byggt á réttum staðreyndum,“ segir SKE.