Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samstarf samkeppnisaðila á sviði innflutnings og dreifingar á lyfjum vegna kórónufaraldursins. Frá þessu var greint í tilkynningu á vef eftirlitsins í gær.

Um er að ræða undanþágu frá banni við samkeppnishindrandi aðgerðum og samráði, en beiðni um slíka undanþágu barst samkvæmt tilkynningunni á fimmtudag.

Er samstarfið meðal annars bundið þeim skilyrðum að Lyfjastofnun meti það nauðsynlegt hverju sinni. Jafnframt er áskilið að Lyfjastofnun sé þátttakandi eða sé gefinn kostur á að vera þátttakandi í öllum samskiptum sem lúta að samstarfinu.

Samkeppniseftirlitið hefur haft samráð við Lyfjastofnun við útfærslu á ákvörðuninni, auk þess sem aflað var umsagnar frá Embætti landlæknis. Í kjölfarið er það sagt hlutverk Lyfjastofnunnar og viðkomandi fyrirtækja og samtaka að útfæra skilvirkt verklag til að framkvæma það samstarf sem undanþágan heimilar.