*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 28. maí 2021 15:38

SKE heimilar yfirtöku Orkla á Nóa

Orkla komst að samkomulagi um kaup á 80% hlut í Nóa Síríusi í byrjun maí og mun eftir heimildina eignast 100% eignarhlut í félaginu.

Ritstjórn
Finnur Geirsson er fráfarandi framkvæmdastjóri Nóa Síríus.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur heimilað kaup Orkla ASA á 80% eignarhlut í Nóa Síríusi hf. Frá árinu 2019 hefur Orkla átt 20% hlut í Nóa Siríusi og eignast því 100% hlut í félaginu eftir yfirtökuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SKE.

Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Norska fyrirtækið Orkla hefði komist að samkomulagi um kaup á öllu hlutafé í Nóa Síríus. Orkla er leiðandi fyrirtæki á neytendavörumarkaði á Norðurlöndunum og selur vörur sínar hér á landi í gegnum heildsala, dreifingaraðila eða beint til smásölukeðja. Vörumerki Orkla sem seld eru hér á landi telja meðal annars Kims, Göteborgs kex, Panda, OWL og Havrefras.

Umsvif Orkla á Íslandi eru töluverð en félagið á eignarhlut í danska félaginu Dragsbæk A/S sem á meirihluta hlutafjár í Kjarnavörum ehf. sem framleiðir meðal annars smjörlíki, sultur og sósur. Félagið á einnig eignarhlut í Bluma FOOD I/S, sem á hlut í Gæðabkastri ehf. og Visku hf.

Eina skörun fyrirtækjanna að mati SKE var í dreifingu og sölu á sælgæti og snakki hér á landi. Var það mat SKE við rannsókn málsins að samruninn myndi ekki styrkja eða leiða til markaðsráðandi stöðu Orkla hér á landi. Þá var ekki heldur talið að samkeppni myndi raskast með umtalsverðum hætti og því hefur heimild fengist fyrir samrunanum frá SKE. 

Stikkorð: Nói Síríus Orkla