Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur ógilt samruna sem áformaður var með kaupum nýstofnaðs félags Myndgreiningar ehf. á Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf. Félögin upplýstu eftirlitið um samrunann þann 20. nóvember síðastliðinn.

Starfsemi félaganna felst í að veita læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu, en undir hana falla m.a. tölvusneiðmyndarannsóknir, röntgenrannsóknir, ómun, segulómun og skyggnirannsóknir.

Eftirlitið taldi að með samrunanum hefði keppinautum á markaði fyrir myndgreiningu utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu fækkað úr þremur í tvo með alvarlegum skaðlegum áhrifum fyrir bæði greiðendur og notendur þjónustunnar.

Í tilkynningu SKE segir að í kjölfar samrunans hefði samanlögð hlutdeild samrunaaðila á markaðnum orðið mjög há eða á bilinu 80%-100%, eftir því um hvaða tegund myndgreiningarþjónustu er að ræða. Þá var það jafnframt mat Samkeppniseftirlitsins að önnur atriði, líkt og kaupendastyrkur Sjúkratrygginga Íslands eða möguleg hagræðing vegna samrunans, kæmu ekki í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans. Endurspeglast það jafnframt í því að Sjúkratryggingar hafa í sjónarmiðum sínum við rannsókn samrunans lagst eindregið gegn honum.

Samrunaaðilarnir höfðu fært rök fyrir því að hagræðing í rekstri hins sameinaða félags hefði komið til með að skila ávinningi til neytanda í formi betri tækni og þjónustu. Samkeppniseftirlitið taldi þá ekki hafa sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að ábati neytenda vegna þeirrar hagræðingar sem hlytist af samrunanum vegi þyngra en þær samkeppnishömlur sem samruninn hefði í för með sér.

Læknisfræðileg myndgreining rekur starfsstöðvar að Egilsgötu 3 í Reykjavík, Þönglabakka 1 í Reykjavík (Læknasetrið Mjódd) og Bíldshöfða 9 í Reykjavík. Fyrirtækið býður upp á fjölbreyttar rannsóknir í myndgreiningarþjónustu auk þess að bjóða upp á sérhæfðar kransæðarannsóknir.

Íslensk myndgreining rekur starfstöð sína að Urðarhvarfi 8 Kópavogi. Fyritækið sinnir hvers kyns almennum myndgreiningarrannsóknum en meginþungi starfsemi félagsins snýr að stoðkerfisrannsóknum.