Samkeppniseftirlitið, SKE, hefur sett í loftið upplýsingasíðu „tileinkaðri hagsmunasamtökum fyrirtækja og samkeppnisreglum sem um þau gilda“. Eftirlitið segist með þessu vilja skýra ákvæði samkeppnislaga sem snúa að hagsmunasamtökum.

„Á síðunni er safnað saman upplýsingum um reglur og beitingu reglna sem koma eiga í veg fyrir að starf hagsmunasamtaka fyrirtækja skaði samkeppni á mörkuðum. Þessar reglur hafa verið staðfestar í framkvæmd bæði hér á landi og erlendis. Þá eru þessar upplýsingar einnig gagnlegar fyrir neytendur, viðskiptavini fyrirtækja og aðra sem vilja skapa virkt aðhald á mörkuðum,“ segir í tilkynningu SKE.

Á upplýsingasíðunni eru dregin fram ellefu liðir í spurt & svarað (Q&A) formi. Þar er meðal annars lagt línurnar um hvað hagsmunasamtök mega gera og hvernig talsmenn þeirra geti tjáð sig opinberlega. „Augljóst er að ummæli [hagsmunasamtaka] geta haft mikil áhrif á meðal fyrirtækja,“ segir í einum lið. Þá er tekið fram að samkeppnisreglur sem snúa að starfsemi hagsmunasamtaka séu sérstaklega mikilvægir á Íslandi þar sem hér ríki fákeppni á ýmsum mikilvægum mörkuðum.

Gagnrýndu umfjöllun um vöruskort og truflanir í aðfangakeðjum

Upplýsingasíðan kemur í kjölfar umdeildrar tilkynningar á vef stofnunarinnar sem titluð er „Hagsmunasamtök mega ekki taka þátt í umfjöllun um verð“. Þar var dregið fram ummæli Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra SVÞ og Gunnars Þorgeirssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, í fjölmiðlum. Þeir höfðu tjáð sig um yfirvofandi vöruskort á ýmsum sviðum og truflanir í aðfangakeðjum.

Samtök Atvinnulífsins og Viðskiptaráð gagnrýndu Samkeppniseftirlitið harðlega í sameiginlegri yfirlýsingu . Samtökin töldu SKE vera komið langt út fyrir sitt lögbundið hlutverk og að stofnunin væri þarna með „dæmalausa aðför að upplýstri umræðu“.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE, skrifaði í kjölfarið aðsenda grein á Vísi þar sem hann greindi betur frá afstöðu stofnunarinnar. Hann taldi forsvarsmenn hagsmunasamtakanna ganga gegn 12. grein samkeppnislaga sem kveður um að samtökum fyrirtækja sé „óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögum“. Þá vitnaði Páll í túlkun á þessu ákvæði í skýrslu SKE frá árinu 2008.

Meðal dæma um háttsemi sem geta farið gegn 12. gr. samkeppnislaganna, samkvæmt túlkun SKE (sem kemur einnig fram á upplýsingasíðunni), eru eftirfarandi:

  • „Umfjöllun eða umræður um verð, verðþróun, viðskiptakjör, verðbreytingar á aðföngum og öðrum kostnaðarliðum.“
  • „Umfjöllun eða umræður um rekstrar-, efnahags- eða viðskiptalega stöðu keppinauta eða viðskiptavina aðildarfélaga.“