*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 29. nóvember 2021 10:21

SKE og Neyt­enda­stofa í eina sæng

Ríkisstjórnin ætlar að kanna möguleikann á sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum til að auka samlegðaráhrif og skilvirkni.

Ritstjórn
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hóf sitt annað kjörtímabil í gær.

Stefnt er að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu, líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin ætlar að kanna möguleika á sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum sem geta aukið samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti. Í stjórnarsáttmálanum kemur jafnframt fram að meginmarkmið ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sé að „styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs“.

Í fyrra var lagafrumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur um breytingar á Samkeppniseftirlitinu samþykkt sem lög. Frumvarpið vakti athygli margra, en Viðskiptablaðið fjallaði um frumvarpið á sínum tíma. Frumvarpinu var ætlað að stuðla að frekari skilvirkni innan stofnunarinnar og létta á umfangi verkefna. Helstu breytingarnar voru hækkun veltuviðmiða fyrirtækja sem hyggjast sameinast sem stofnunin skoði, afnám áfrýjunarréttar stofnunarinnar til dómstóla eftir úrskurð æðra stjórnvalds og afnám heimildar til að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum auk þess sem ábyrgð á því hvort samstarf fyrirtækja uppfylli skilyrði samkeppnislaga er fært til þeirra sjálfra líkt og gert er í Evrópulöndum.