*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Innlent 30. júlí 2018 22:20

SKE samþykkir kaup N1 á Festi

Fyrirtækin samþykktu meðal annars að selja fimm bensínstöðvar og verslun Kjarvals á Hellu til að liðka fyrir samrunanum.

Ritstjórn
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1.
Aðsend mynd

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup N1 hf. á öllu hlutafé í Festi hf. gegn ákveðnum skilyrðum samkvæmt tilkynningu frá N1.

Af sáttinni leiðir að N1 verður nú heimilt að taka við rekstri Festi sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Kr, Nóatúns og Kjarvals, ELKO og vöruhótelið Bakkann. Fyrirtækin hyggjast nýta næstu vikur til að undirbúa afhendingu hins selda reksturs og greiðslu kaupverðsins sem stefnt er að fari fram í lok ágúst. Að öðru leyti eru markmið sáttarinnar og meginefni skilyrðanna eftirfarandi:

  1. Aukið aðgengi nýrra endurseljenda að fljótandi eldsneyti í heildsölu.
  2. Aukið aðgengi að þjónustu hjá Olíudreifingu ehf.
  3. Sala á fimm sjálfsafgreiðslustöðvum til nýrra, óháðra aðila á eldsneytismarkaði. Um er að ræða þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar undir merkjum Dælunnar við Fellsmúla og Staldrið í Reykjavík og Hæðarsmára 8 í Kópavogi, og tvær stöðvar undir merkjum N1 við Salarveg í Kópavogi og Vatnagarða í Reykjavík.
  4. Sala á verslun Kjarvals á Hellu.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1 segir um niðustöðuna ánægjulegan áfanga í löngu ferli. „Miklar breytingar hafa orðið, og munu verða áfram, á þeim mörkuðum sem þessi fyrirtæki starfa á. Þessi viðskipti eru í samræmi við þá framtíðarstefnu sem N1 hefur mótað og kynnt var í desember 2016. Markmið samrunans er skýrt, að hagræða í rekstri og veita viðskiptavinum beggja félaga í kjölfarið öflugri og betri þjónustu. Nú tekur við undirbúningur að framkvæmd afhendingar og samrunans með starfsfólki samstæðunnar og viðskiptavinum," segir Eggert Þór.

Endanlegt kaupverð að teknu tilliti til leiðréttingarákvæða í kaupsamningi, er 23,7 milljarðar króna. Það greiðist það annars vegar með afhendingu 79.573.913 hluta í N1 á genginu 115, eða 9.151 milljón króna, og hins vegar með 14.556 milljónum króna í reiðufé. Nettó vaxtaberandi skuldir Festi í lok síðasta rekstrarárs, þann 28. febrúar 2018, námu 14.332 milljónum króna en gert er ráð fyrir endurfjármögnun allra langtímaskulda samstæðunnar í tengslum við viðskiptin. Þar sem útreikningur á kaupverði miðast við 28. febrúar síðastliðinn, en endanlegt uppgjör er áætlað 31. ágúst næstkomandi, eru greiddar 480 milljónir króna í vexti vegna þess tímabils. Eigendur Festi munu því eignast nýja hluti sem taka til 24,1% alls hlutafjár N1 og er sölubann á þeim hlutum til 31.12.2018.

Festi sérhæfir sig í rekstri verslunarfyrirtækja og rekur 29 verslanir undir merkjum Krónunnar, Kr, ELKO, Nóatúns, Kjarvals, en félagið á einnig og rekur Bakkann vöruhótel og Festi fasteignir. Festi fasteignir er eigandi að 16 fasteignum sem eru annað hvort í leigu til verslana félagsins eða til þriðja aðila og er heildarstærð fasteignanna um 72.000 fermetrar. Heildarvelta Festi var tæplega 40 milljarðar króna og EBITDA 3,4 milljarðar á reikningsárinu sem lauk 28. febrúar 2018 en meðalfjöldi starfsmanna var 623 á sama tímabili. Rekstraráætlun Festi fyrir rekstrarárið sem lýkur 28. febrúar 2019 gerir ráð fyrir að heildarvelta verði 43.000 milljarðar króna og að EBITDA verði 3,35 milljarðar króna.

EBITDA spá N1 fyrir árið 2018 er óbreytt og gerir ráð fyrir að EBITDA muni verða á bilinu 3,5 til 3,7 milljarðar króna að undanskildum kostnaði við kaupin á Festi. Samanlögð EBITDA N1 á árinu 2017 og Festi á rekstrarárinu sem lauk 28. febrúar 2018 var 6,91 milljarður króna að undanskildum kostnaði við kaup N1 á Festi en m.v. EBITDA spá N1 fyrir árið 2018 að undanskildum kostnaði við kaup á Festi og rekstraráætlun Festi fyrir rekstrarárið sem lýkur 28. febrúar 2019 verður samanlögð EBITDA án samlegðar á bilinu 6,85 til 7,05 milljarðar króna.

Áætluð samlegðaráhrif af sameiningu N1 og Festi eru á bilinu 500-600 milljónir króna og munu þau koma fram á næstu 12 til18 mánuðum.

Boðað á til hluthafafundar hjá N1 í september þar sem á dagskrá verður kjör stjórnar, tillaga um breytta starfskjarastefnu og tillaga um að koma á fót tilnefningarnefnd.