Síðastliðinn mars festi félagið Prentmet kaup á prentsmiðju Odda með fyrirvara um samþykki Samkeppnisyfirvalda sem hefur nú lagt blessun sína yfir sameiningu félaganna. Greint er frá þessu í tilkynningu frá Prentmet Odda, sem er nafn hins sameinaða félags.

Sameinuð prentsmiðja verður rekin að Höfðabakka 7 þar sem Oddi var áður til húsa. Rúmlega 100 starfsmenn starfa hjá félaginu og var samanlögð velta félaganna á síðasta ári um 1.900 milljónir króna.

Prentsmiðjan Oddi er 76 ára gamalt félag sem upphaflega var stofnað um prentverk en hefur einnig framleitt og flutt inn gæðaumbúðir síðastliðin ár. Félagið hefur glímt við rekstrarerfiðleika síðustu ár og sagði upp 86 starfsmönnum árið 2018 þegar fyrirtækið hætti eigin umbúðaframleiðslu.

Prentmet var stofnað árið 1992 og er rekin af þeim hjónum Guðmundi Ragnari Guðmundssyni og Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttir, sem jafnframt eru eigendur félagsins. Prentmet hefur rekið fullbúna prentsmiðju frá 1995 og fært jafnt og þétt út kvíarnar, m.a. með kaupum á prentverki um allt land. Guðmundur Ragnar var á meistarasamning hjá Odda 1985-1988 og nam í framhaldinu nám í Rekstrarfræðum við Háskólann á Bifröst.