Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur samþykkt kaup Stál í Stál ehf. á öllu hlutafé í Deili tækniþjónustu ehf., en eftirlitið mat sem svo að í kaupunum fælist samruni. Stál í stál átti fyrir kaupin allt hlutafé í tveimur dótturfélögum, Hamri ehf. og Idea ehf., en til álita kom skörun á starfsemi Deilis og Hamars.

Í ákvörðun SKE kemur fram að samkvæmt samrunaskrá sé sú starfsemi sem skarast á milli samrunaaðila á markaði fyrir málmtækniiðnað, en bæði hluti af starfsemi Deilis og starfsemi Hamars er á þeim markaði.

Fram kemur að samrunaaðilar hafi áætlað sameiginlega markaðshlutdeild Hamars og Deilis á markaði um 5% og að þeir telji starfsemi félaganna ólíka og viðskiptavini þeirra að stærstum hluta ekki þá sömu.

Við mat SKE á samkeppnislegum áhrifum samrunans taldi eftirlitið rétt að líta til þess að nokkur fjöldi fyrirtækja veiti samrunaaðilum samkeppnislegt aðhald á umræddum mörkuðum. Þá þótti ólíklegt að hlutdeild þeirra á umræddum sviðum væri svo há að hún væri líkleg til að leiða til markaðsráðandi stöðu eða umtalsverðrar röskunar á samkeppni. Þá nefnir eftirlitið að fyrir lægi að skörun í starfsemi samrunaaðila á markaði málsins væri takmörkuð.

í ljósi þessa taldi eftirlitið ekki forsendur vera til íhlutunar vegna kaupa Stál í Stál á Deili tækniþjónustu.