*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Innlent 3. júlí 2020 08:40

SKE samþykkir stjórnarsetu Evu í Högum

Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt Högum að stjórnarseta Evu Bryndísar sé ekki í andstöðu við sátt SKE og Haga.

Ritstjórn
Eva Bryndís Helgadóttir
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt tilkynningu Haga barst félaginu bréf frá Samkeppniseftirlitinu í gær þar sem fram kemur að eftirlitið telur að seta Evu Bryndísar Helgadóttur í stjórn Haga sé ekki í andstöðu við sátt þess við Haga frá 11. september 2018. Málinu telst því lokið.

Kvöldið fyrir aðalfund Haga, sem haldinn var 9. júní, barst tilkynning um að SKE hafi gert athugasemd við framboð Evu Bryndísar, lögmanns hjá LMB Mandat, til stjórnar Haga. Í tilkynningunni kom fram að vegna athugasemdar eftirlitsins yrði kosningu stjórnar frestað. 

Eftirlitið taldi að mögulegt kjör Evu Bryndísar gæti falið í sér brot á sátt Haga og SKE frá 11. september 2018 vegna kaupa Haga á Olíuverzlun Íslands. Fyrir aðalfundinn hafði Eva Bryndís, sem var ein þeirra sem tilnefninganefnd Haga lagði til að yrði kjörin í stjórnina, nýlega látið af störfum sem stjórnarformaður Olíudreifingar. 

Á meðan aðalfundinum stóð barst staðfesting frá SKE um að eftirlitið myndi ekki leggjast gegn stjórnarkjöri í Högum þar sem bréfið feli ekki í sér sektarbrot. Stjórnarkjör fór því fram samkvæmt dagskrá og var Eva Bryndís kosin í stjórn.