Félag atvinnurekenda hefur sent Samkeppniseftirlitinu erindi, í framhaldi af kvörtunum nokkurra félagsmanna, og farið fram á að stofnunin taki til skoðunar samning Reykjavíkurborgar við rekstraraðila Hlemms Mathallar ehf., með tilliti til þess hvort hann feli í sér opinberan styrk sem raski samkeppni á markaði. Þetta kemur fram í frétt á vef Félags atvinnurekanda.

Í erindi FA er rifjað upp að þegar auglýst var eftir rekstraraðila fyrir veitinga- og matarmarkað á Hlemmi árið 2015 var tekið fram í auglýsingu að samið yrði „nánar um leigu fyrir húsið á grundvelli markaðsleigu á nærliggjandi svæði og mögulegan kostnað við breytingar á húsnæðinu.“

Fram hefur komið að áætlaður kostnaður borgarinnar við breytingar á húsnæðinu var í upphafi rúmlega 107 milljónir, en heildarkostnaðurinn endaði í rúmlega 308 milljónum. Þá hafi leiguverð húsnæðisins samkvæmt samningi í febrúar 2016 verið kr. 1.012.000 á mánuði, en viðauki hafi verið gerður við samninginn í maí 2017 þar sem leigan var hækkuð upp í kr. 1.143.179 á mánuði, vegna framkvæmda að ósk leigutaka. Miðað við verðlag í október 2018 er leigan kr. 1.209.254 á mánuði eða kr. 14.511.049 á ársgrundvelli, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg. Samkvæmt leigusamningnum er hið leigða húsnæði 529 fm og leiguverð á fermetra því tæpar 2.300 krónur.