Félag atvinnurekenda hefur sent Samkeppniseftirlitinu (SE) erindi og farið fram á að eftirlitið taki til skoðunar bæði háttsemi afurðastöðva, sem leitt hefur til fyrirsjáanlegs skorts á lambahryggjum í verslunum, og viðbrögð stjórnvalda við fyrirsjáanlegum skorti. Frá þessu er greint á vef Félags atvinnurekenda.

Í erindi FA til SE er bent á að yfirvofandi skortur eigi ekki rætur sínar að rekja til óvenjumikillar neyslu landsmanna á lambakjöti eða framleiðslubrests, heldur til  stórtæks útflutnings afurðastöðva á lambakjöti til útlanda á verði sem er mun lægra en íslenskum verslunum stendur til boða.

„Slíkur útflutningur hefur því skapað skort á lambakjöti sem hefur leitt til hækkunar á verði á lambakjöti í innlendum verslunum, neytendum til tjóns. Yfirvofandi skortur hefur verið ljós í marga mánuði enda barst [atvinnuvega]ráðuneytinu beiðni um tímabundinn innflutningskvóta í apríl á þessu ári frá innflutningsaðilum en ekkert var aðhafst fyrr en nú.“

Háttsemi afurðastöðvanna verði rannsökuð

FA fer þess á leit við SE að það hefji rannsókn á háttsemi þeirra afurðastöðva sem eiga hlut að máli enda geti háttsemi þeirra engan veginn talist vera í samræmi við samkeppnislög. „Háttsemi afurðastöðvanna í tengslum við útflutning á lambakjöti, gagngert að því er virðist til þess að stuðla að skorti og verðhækkunum hér á landi, þarf að rannsaka. FA telur því nauðsynlegt að Samkeppniseftirlitið rannsaki hvort um samstilltar aðgerðir afurðastöðvanna hafi verið að ræða sem voru til þess fallnar að raska eða koma í veg fyrir samkeppni á nú þegar mjög vernduðum markaði, sbr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. FA telur einnig þörf á að rannsaka hvort umræddar vörur hafi verið undirverðlagðar í útflutningi til þess að skapa  innlendan skort, í þeim tilgangi að halda uppi verðlagi hér á landi. FA biðlar einnig til Samkeppniseftirlitsins að rannsaka hvort afurðastöðvarnar sem um ræðir hafi beitt blekkingum þegar ráðuneytið athugaði hvort skortur væri yfirvofandi, í þeim tilgangi að stuðla að því að innflutningur væri ekki samkeppnisfær og þannig áframhaldandi skorti með tilheyrandi verðhækkunum, neytendum til tjóns,“ segir í erindi félagsins.