*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 30. mars 2021 10:10

SA kalla eftir úttekt á SKE

SA hafa kallað eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Samkeppniseftirlitinu vegna máls Festi um sölu verslunar á Hellu.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson
Haraldur Guðjónsson

Samtök atvinnulífsins (SA) hafa hvatt Alþingi til að kalla eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Samkeppniseftirlitinu, SKE, m.a. vegna framferði stofnunarinnar í máli Festi um sölu verslunar Kjarvals á Hellu. „Eftirlitsstofnunin ætti að fagna slíkri úttekt,“ er haft eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA, í frétt Fréttablaðsins.

Festi hefur gengið erfiðlega að selja verslunina Kjarval á Hellu, sem er eitt af skilyrðum sátt félagsins við SKE vegna samrunans við N1 í júlí árið 2018. Komið var í veg fyrir sölu á Kjarvals versluninni, til óstofnaðs einkahlutafélags Sigurðar Elíasar Guðmundssonar, meðal annars vegna álits óháðs kunnáttumanns. SKE tilkynnti þann 18. mars síðastliðinn að rannsókn væri hafin á því hvort Festi hafi brotið gegn fyrrgreindri sátt.

„Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hlýtur að kalla eftir skýringum Samkeppniseftirlitsins á þessum samskiptum og ákvörðunum þeim tengdum,“ er haft eftir Halldóri. 

Alls hefur óháður kunnáttumaður, lögmaðurinn Lúðvík Bergvinsson, fengið 55,6 milljónir króna frá því að hann tók til starfa. Þá hefur lögfræðikostnaður Festi numið rúmlega 24 milljónum króna vegna þessara mála frá 2018 og samanlagður kostnaður því 80 milljónir króna.

Halldór segir það blasa við að óeðlilegt sé að setja Festi í þá stöðu að standa í deilum um reikninga frá kunnáttumanni sem hafi verið fært vald til að hafa veruleg áhrif á haf félagsins. 

„Þögn eða aðgerðaleysi þings er óboðlegt þegar ríkisstofnun gengur fram með þessum hætti. Setja verður Samkeppniseftirlitinu skýr mörk og veita því nauðsynlegt aðhald, en hvort tveggja skortir,“ segir Halldór Benjamín.