Samkeppniseftirlitið „[brýnir] fyrir forsvarsmönnum hvers konar hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að taka ekki þátt í umfjöllun sem tengist verðlagningu eða annarri markaðshegðun fyrirtækja“, í tilefni ummæla forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins og Samtaka verslunar og þjónustu í fjölmiðlum undanfarna daga. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef eftirlitsins í dag.

Framkvæmdastjórar ofangreindra samtaka hafa látið hafa eftir sér að verðhækkanir erlendis vegna röskunar aðfangakeðja í tengslum við heimsfaraldurinn hafi og muni áfram valda verðbólguþrýstingi hér á landi. Eftirlitið nefnir einnig Bændasamtökin og ummæli formanns þeirra um verðhækkanir á áburði í þessu sambandi.

Áréttað er í tilkynningunni að samtök fyrirtækja verði að fara „afar gætilega þegar kemur að umræðu og fræðslu sem getur haft áhrif á markaðshegðun félagsmanna“. Öll þátttaka í umræðu um verð og verðlagningu sé sérstaklega varhugaverð og „ætti ekki að eiga sér stað á vettvangi hagsmunasamtaka“, enda setji ákvæði samkeppnislaga hagsmunasamtökum skorður í þeim efnum.

Stjórnendur fyrirtækja eru ennfremur minntir á skyldur sínar til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í rekstri, „án tillits til umfjöllunar á vettvangi hagsmunasamtaka“. Á samkeppnismarkaði eigi hækkun aðfangaverðs „ekki að leiða sjálfkrafa til hækkunar á verði til neytenda“.

Loks er því beint til neytenda að vera á varðbergi gagnvart þeim verðhækkunum sem framundan kunna að vera.