Samkeppniseftirlitið (SKE) varði um 41% af ráðstöfunartíma sínum í rannsóknir á ólögmætu samráði á síðasta ári og 20% tímans fór í rannsókn samrunamála. Þetta kemur fram í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2020 sem birtist í dag, 22. desember 2021.

Um er að ræða fyrstu ársskýrslu SKE frá árinu 2012 en lögð var skylda á stofnunina að gefa út ársskýrlur samkvæmt breytingum á samkeppnislögum sem samþykktar voru um mitt síðasta árs.

Eftirlitið, sem taldi 27 ársverk á síðasta ári, vann að 170 málum á árinu og tveimur þriðju þeirra lauk áður en árið var á enda. Stofnunin beitti íhlutun í 23 málum en þar af lagði eftirlitið stjórnvaldssektir á fjögur fyrirtæki í þremur málum. Voru það sektir á Símann , Íslandspóst , Ölgerðina og CCEP .

Af þeim 26 samrunum sem til rannsóknar á síðasta ári voru var einn samruni ógiltur og tveimur sett skilyrði. Tveir samrunar til viðbótar voru dregnir til baka eftir að frummat eftirlitsins hafði verið kynnt fyrir aðilum.

Jafnframt kemur fram að eftirlitinu hafi „borist óvenju margar ábendingar“ á síðustu tveimur árum mála sem tekin voru til rannsóknar. Alls barst SKE 142 ábendingar á síðasta ári og 146 árið áður en til samanburðar var fjöldi ábendinga 71 árið 2018.

Sundurliðun á hvernig ráðstöfunartíma Samkeppniseftirlitsins var varið á síðasta ári.

Málum í meðferð fækkað

Samkeppnieftirlitið hefur í gegnum tíðina fengið gagnrýni fyrir seinagang við meðferð mála. Í ársskýrslunni segir eftirlitið að til að halda meðferð í sem bestu horfi skiptir máli að ekki séu of mörg mál til meðferðar hverju sinni.

Með hertari forgangsröðun mála hafi málum til meðferðar fækkað úr 84 í upphafi árs 2020 í 59 í upphafi árs 2021. Forgangrsröðunin felst í að eftirlitið hafnar upptöku mála, gefur leiðbeiningar í stað þess að taka mál til rannsóknar eða leggur mál niður án niðurstöðu.

Fjöldi mála í meðferð hjá SKE á hverjum tíma.