Samkeppniseftirlitið hefur veitt Samtökum ferðaþjónustunnar undanþágu frá banni við samkeppnishindrandi aðgerðum og samráði fyrirtækja til að bregðast við útbreiðslu Covid-19 veirunnar, sem talin er uppruninn í Wuhan borg í Kína.

Svaraði stofnunin beiðni samtakanna um undanþáguna sem send var í gær strax í dag, svo aðildarfyrirtæki samtakanna geta nú gripið til aðgerða til að verja eða auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að undanþágan geri SAF meðal annars kleift að standa fyrir umfjöllun um leiðir til að auðvelda viðskiptavinum aðildarfyrirtækja að taka ákvarðanir um kaup á ferðaþjónustu og auka svigrúm viðskiptavina til að bregðast við áhættu af útbreiðslu veirunnar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur veiran breiðst út víða um heim og haft áhrif á eftirspurn eftir flugferðum sem og valdið því að fjölmargir aðilar hafa bæði aflýst fundum og eða ráðstefnum.

Samkeppniseftirlitið segir erindi SAF gera glögga grein fyrir þeim erfiðleikum sem íslensk ferðaþjónusta standi frammi fyrir þar sem hætta sé að rekstrarskilyrðin versni verulega vegna útbreiðslu veirunnar „vegna útbreiðslu veirunnar og koma í auknum mæli fram í bókunarstöðu ferðaþjónustunnar, hvort sem litið sé til skemmri eða lengri tíma.“

Í bréfi SAF er óskað eftir undanþágunni til 30. apríl næstkomandi, en þegar nær dragi lokum gildistímans verði lengd hennar endurskoðuð til framlengingar ef tilefni er til.