Fjármálaeftirlitinu skeikaði um 287 milljarða króna í útreikningum sínum á útlánum bankanna í skýrslu sem kom út á þriðjudaginn. Í nýrri útgáfu skýrslunnar hafa tölurnar verið leiðréttar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

Samkvæmt Morgunblaðinu greinir FME ekki frá því nákvæmlega í hverju mistökin fólust, að öðru leyti en að þau hafi orsakast af breytingum á aðferðum FME við samantekt gagna.

Í skýrslunni sem um ræðir kemur fram að stóru viðskiptabankarnir þrír auk MP banka hafi samtals hagnast um 81,4 milljarða króna á árinu. Sparisjóðir töpuðu hins vegar samtals um 1,7 milljarði króna, að miklu leyti vegna neikvæðrar afkomu Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Bókfært eigið fé bankanna var samtals 604 milljarðar í lok síðasta árs. Mest eigið fé átti Landsbankinn, 251 milljarð. Hann átti jafnframt mestar eignir, eða 1.098 milljarða króna.