Ýmislegt virðist benda til þess að eftirliti Samgöngustofu með rekstrarleyfum til fólksflutninga sé ábótavant. Að minnsta kosti sex fyrirtæki, sem sum eru meðal stærri fyrirtækja í rekstri hópbifreiða, uppfylltu ekki skilyrði rekstrarleyfis miðað við stöðu eiginfjár um síðustu áramót og hafa sum þeirra ekki uppfyllt skilyrðin í þónokkur ár.

Í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að stofnunin staðfesti að virkt eftirlit sé með leyfishöfum með almennt rekstrarleyfi þó að hún tjái sig ekki um einstök mál. Samgöngustofa sé bundin af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar, svo sem rannsóknar og andmælareglu. Liggi fyrir að skilyrðin séu ekki lengur uppfyllt er heimilt að krefjast úrbóta innan hæfilegs frests. Þá segir einnig að af þessu sjáist og með vísan til meðalhófs að eftirlit og beiting viðurlaga geti verið tímafrekt ferli.

Í reglugerð um rekstrarleyfið kemur fram að gerð séu skilyrði um að rekstraraðili hafi aðgang að nægjanlegu fjármagni til að stofna fyrirtæki og tryggja öruggan rekstur þess. Þetta felur meðal í sér að fyrirtæki verður að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. 1.150.000 krónum fyrir fyrsta ökutæki og svo 640.000 krónum umfram það. Þetta þýðir því að fyrirtæki sem er með 10 ökutæki í rekstri sínum skal vera með eigið fé og sjóði sem jafngilda 6,9 milljónum króna. Fyrirtækin þurfa því ekki einungis að vera með jákvætt eigið fé heldur þarf það einnig að vera í samræmi við þann fjölda bifreiða sem þau hafa í flota sínum.

Í reglugerðinni segir einnig að liggi fyrir að leyfishafi uppfylli ekki lengur skilyrði um rekstrarleyfið sé Samgöngustofu heimilt að krefjast úrbóta innan hæfilegs frests og telji stofnunin þess þörf að fella leyfið niður tímabundið. Sinni leyfishafi ekki úrbótum innan hæfilegs frests skuli leyfi afturkallað. Samkvæmt Samgöngustofu hefur stofnunin til meðferðar á ýmsum stigum málefni á um annan tug starfsleyfishafa en hefur ekki enn afturkallað leyfi á grundvelli laganna frá gildistöku þeirra í júní 2017.

Eigi að vera rekstrarhæf

Af þeim samtölum að dæma sem Viðskiptablaðið hefur átt við aðila í hópbifreiðageiranum ríkir töluverð óánægja með að félög fái að halda áfram starfsemi þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði rekstrarleyfis þá sérstaklega í kjölfar umræðu um flugrekstrarleyfi WOW air.

Þá ríkir einnig óánægja með að Samgöngustofa fylgi ekki eftir eftirlitsskyldu sinni sem kveðið er á um í lögum og reglugerð um starfsemina. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum hafa rekstraraðstæður í greininni versnað til muna á undanförnum árum og samanlögð afkoma fjögurra stærstu fyrirtækjanna versnað um 742 milljónir króna á síðustu tveimur árum og nam samanlagt tap þeirra 338 milljónum króna þrátt fyrir tæplega 17,4 milljarða veltu. Hækkandi rekstrarkostnaður auk mikillar samkeppni eru helstu ástæður versnandi afkomu og nefndu viðmælendur blaðsins að það skekki samkeppnisstöðu á markaðnum enn frekar að aðilar á fái að starfa án þess að uppfylla skilyrði rekstrarleyfis.

Þá nefndu viðmælendur blaðsins að lítið sem ekkert eftirlit geri það að verkum að traust á markaðnum minnki þar sem aðilar sem eigi í viðskiptum við fyrirtæki með rekstrarleyfi geti ekki verið fullvissir um að rekstrarhæfi sé fyrir hendi. Það að fyrirtæki sé með rekstrarleyfi til fólksflutninga eigi að vera til marks um að það sé rekstrarhæft enda eru gerðar kröfur um eiginfjár- og lausafjárstöðu en þeim kröfum sé svo ekki framfylgt.

Eigi þetta bæði við um erlendar ferðaskrifstofur og viðskipti milli fyrirtækja á markaðnum en töluvert er um að fyrirtæki á markaðnum eigi viðskipti sín á milli. Upp getur komið sú staða og dæmi eru um að gjaldþrot fyrirtækja sem höfðu rekstrarleyfi hafi gert það að verkum að kröfuhafar þeirra hafi tapað tugum milljóna króna vegna viðskipta sem gerð hafi verið í þeirri trú að að mótaðilinn væri rekstrarhæfur enda gæfi rekstrarleyfið merki um það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .