Skel fjárfestingafélag, áður Skeljungur, hagnaðist um 3,3 milljarða á fyrsta ársfjórðungi í nýbirtu uppgjöri félagsins. Hagnaðurinn stafar að stórum hluta af sölu fasteigna.

Ásgeir Reykfjörð í stjórn Kaldalóns

Skel tilkynnti undir lok síðasta árs um 8,8 milljarða sölu fasteigna þar sem eignirnar voru að mestu seldar Kaldalóni og að hluta greiddar með hlutafé í Kaldalóni. Strengur, sem eignaðist meirihluta í Skel í byrjun síðasta árs, er jafnframt með ráðandi hlut í Kaldalóni. Þá leigi Orkan, dótturfélag Skeljar, stóran hluta fasteignanna aftur af Kaldalóni. Eftir að gengið var frá viðskiptunum óskaði Skel eftir stjórnarkjöri á hluthafafundi hjá Kaldalóni þar sem Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, nýr forstjóri Skeljar, verður tilnefndur stjórnarmaður í Kaldalóni.

Átta milljarða hagnaður á árinu

Í uppgjörinu kemur fram að ráðgert er að hagnaður ársins í heild hjá Skel verði 7,6-8,3 milljarðar króna en þar af séu um 5 milljarðar króna vegna sölu fasteigna.

Umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á rekstri Skeljar að undanförnu þar sem verið er að breyta félaginu úr smásölu í fjárfestingafélag. Sérstök dótturfélög voru stofnuð um olíusölu og verslanarekstur félagsins. Framlegð rekstrarfélaga á fjórðungnum var 1,98 milljarðar króna miðað við 1,32 milljarðar króna. Þá nam rekstrarhagnaður (EBITDA) rekstrarfélaga fyrir afskriftir 733 milljónir en var 184 milljónir króna á fyrsta fjórðungi fyrir ári.

60 milljónir vegna starfsloka

Í fjárfestakynningu Skeljar kemur fram að kostnaður við starfslok hafi numið 60 milljónum króna. Árni Pétur Jónsson sagði upp störfum sem forstjóri í febrúar og sagði í yfirlýsingu að hann hafi farið yfir mörk í samskiptum við yngri samstarfskonu fyrir 17 árum.

Horft til nýrra atvinnugreina

Í fjárfestakynningunni kemur fram að félagið hyggist á næstunni nýta fjárfestingagetu félagsins til að fjárfesta í nýjum atvinnugreinum. Áhersla verði lögð á tækifæri þar sem hægt er að auka arðsemi með stuðningi Skel. Þá verður einnig horft til þess að kaupa félög í tengdum rekstri og útvíkka starfsemi þeirra og auka veltu.

Í síðustu viku var tilkynnt um kaup Skeljar á 7,3% hlut í VÍS og var þar með orðið stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópnum.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar:

„Reksturinn gekk heilt yfir vel á fjórðungnum í skugga stríðsátaka sem hafði talsverð áhrif hér á landi með hækkandi olíuverði og hærra verði á aðföngum. Það varð viðsnúningur í rekstri rekstrarfélaganna ásamt því sem ný félög bættust við eignasafnið á árinu 2021 sem höfðu jákvæð áhrif á EBITDA afkomu tímabilsins sem rúmlega þrefaldaðist milli ára.

Vinna við áframhaldandi umbreytingu hélt áfram á ársfjórðungnum. Gengið var endanlega frá sölu fasteigna til Kaldalóns. SKEL fékk afhent bréf í Kaldalóni 3. maí og hefur óskað eftir hluthafafundi í félaginu með það að leiðarljósi að koma fulltrúa SKEL, Ásgeiri Reykfjörð í stjórn félagsins.

Við höfum mikla trú á Kaldalóni og að það vaxi hratt sem fjórða skráða fasteignafélag landsins. Tilkynnt var um fjárfestingu SKEL í VÍS í aprílmánuði. Um er að ræða spennandi fjárfestingarkost til lengri tíma. Með sölunni til Kaldalóns og fjárfestingu í VÍS var stigið enn eitt skrefið í umbreytingu á félaginu. SKEL er orðið sterkt fjárfestingafélag með fjölbreytt eignasafn og talsverða fjárfestingagetu.

Þá var tilkynnt um ráðningu Ásgeirs Helga Reykfjörð Gylfasonar í starf forstjóra og Magnúsar Inga Einarssonar sem fjármálastjóra. Við bindum miklar vonir að þessir reynslumiklu menn munu taka félagið áfram að krafti."