Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í 2,3 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem lækkuðu um 0,4% í um 400 milljóna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 534 krónum á hlut.

Hlutabréfaverð Skeljar fjárfestingarfélag hækkaði um 6,3% í 80 milljóna króna veltu í dag og stendur nú í 17,0 krónum. Gengi Skeljar hefur nú hækkað um tæplega 15% frá byrjun síðustu viku.

Skel sendi í morgun frá sér afkomuviðvörun en félagið áætlar að hagnaður ársins 2022 verði talsvert umfram afkomuspá sína, einkum vegna uppfærðs verðmats á óskráðum fjárfestingareignum sínum.

Auk Skeljar hækkuðu hlutabréf Reita, Sýnar, Ölgerðarinnar og Arion banka um meira en 1% í viðskiptum dagsins. Hagar lækkuðu mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,3%, þó aðeins í 30 milljóna veltu.