Spurður um könnun Viðskiptablaðsins sem sýndi frekar takmarkaðan áhuga hjá almenningi að fjárfesta í hlutabréfum segir Páll Harðarson, forstjóri OMX kauphallarinnar á Íslandi, að hún hafi verið skoðuð gaumgæfilega í Kauphöllinni. „Við höfum raunar haldið því fram og talið mjög æskilegt að fjárfestar gengju hægt um gleðinnar dyr og þess vegna túlkuðum við könnunina ekki endilega sem neikvæða niðurstöðu. Það væri í hæsta máta óeðlilegt miðað við allt sem á undan hefur gengið að fjárfestar ryddust umhugsunarlaust inn á hlutabréfamarkaðinn.

Páll segir að það sem ollið hafi mestum áhyggjum í könnuninni var að hún hafi sýnt að það væri skelfilega lágt hlutfall kvenna sem hefði áhuga á að fjárfesta í hlutabréfum. "Það er gott og heilbrigt fyrir markaðinn að á honum endurspeglist sem flest viðhorf. Ég hefði kosið að það hefði verið meira jafnvægi á milli kynjanna að því er snertir viðhorf til hlutabréfamarkaðarins.“

Nánar um málið í viðtali við Pál í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.