„Það væri skelfilegt ef þetta hús og holan yrði minnisvarði um brostnar vonir,“ segir Helgi Gunnarsson, framkvæmdastjóri Portus ehf. Hann vísar þar til tónlistar- og ráðstefnuhúss sem félagið reisir nú við höfnina í miðborg Reykjavíkur. Portus hefur að jöfnu verið í eigu Landsbankans og Nýsis en eftir að ríkið yfirtók bankann hefur algjör óvissa ríkt um framhaldið. Sömuleiðis ríkir óvissa um önnur verkefni sem tengjast Portus, svo sem fyrirhugað hótel og viðskiptamiðstöð.

Forsvarsmenn Portus funduðu með borgarstjóra og menntamálaráðherra um helgina. Þar var meðal annars rætt hvort og þá hvernig ríki og borg gætu yfirtekið verkefnið. Engin niðurstaða fékkst á fundunum en málið er áfram í skoðun. Bygging tónlistar- og ráðstefnuhússins er hálfnuð en forsvarsmenn Portus vilja að ríki og borg taki ekki einungis það verkefni yfir heldur einnig hótelið og viðskiptamiðstöðina. Helgi telur að verði fallið frá þessum verkefnum öllum glatist gríðarleg verðmæti.

Hann segir að hægt verði að selja hótelið þegar fram líða stundir. Til að mynda hafi öflugir erlendir aðilar sýnt því áhuga fyrir einungis tíu dögum.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .