Icelandair hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í viðskiptum dagsins, um 2,4% í 230 milljóna viðskiptum. Dagslokagengið félagsins stendur í 1,91 krónum á hlut.

Skeljungur hækkaði um 1,8% í 120 milljón króna viðskiptum. Hlutabréfaverð félagsins hefur aldrei verið hærra. Það hefur hækkað um 20% á árinu og stendur í 16,8 krónum á hlut.

Útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan halda einnig áfram að hækka. Gengi bréfa Brims hefur aldrei verið hærra, en dagslokagengið stendur í 95 krónum á hlut. Síldarvinnslan hækkaði um 1% í viðskiptum dagsins og stendur gengi félagsins í 101 krónum á hlut.

Upplýsingatæknifyrirtækið Origo lækkaði mest allra félaga, um 1,34% í 30 milljón króna viðskiptum. Einungis fjögur félög lækkuðu á aðalmarkaði, til viðbótar við Origo. Það eru Íslandsbanki, Kvika banki, Marel og Sýn.

Mest velta var með bréf Íslandsbanka, en viðskipti með bréfin námu 1,8 milljörðum króna. Heildarvelta á markaði nam 4,7 milljörðum króna.