Lyfsalinn, sem Skeljungur á 10% hlut í, hefur fengið staðfest kauptilboð að fjárhæð 1,5 milljörðum króna í allt hlutafé Lyfjavals og Landakot fasteignafélags, sem eru í eigu Þorvalds Árnasonar og Auðar Harðardóttur. Kaupverð verður greitt með eiginfjárframlagi og lántöku.

Samhliða kaupunum hyggst Skeljungur kaupa um 46% hlut í Lyfsalanum með þeim fyrirvara að kaupin á Lyfjaval og Landakoti gangi eftir. Kaupin verða fjármögnuð með hlutafjáraukningu Skeljungs í Lyfsalanum að fjárhæð 400 milljónum króna og við það verður Skeljungur 56% hluthafi í félaginu, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar

Kaupin eru háð ýmsum forsendum og hefðbundnum fyrirvörum, m.a. um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Í tilkynningu Skeljungs segir að vonast er til að kaupin verði frágengin á fjórða ársfjórðungi.

Lyfsalinn rekur þrjú apótek á höfuðborgarsvæðinu, í Glæsibæ, Urðarhvarfi og eitt bílaapótek við þjónustustöð Orkunnar sem er í eigu Skeljungs við Vesturlandsveg. Lyfjaval rekur einnig þrjú apótek, þ.e. í Mjódd, Apótek Suðurnesja og bílaapótek Hæðasmára. Með í kaupunum fylgja framangreindar fasteignir.

Gert er ráð fyrir að rekstur Lyfjavals og Lyfsalans muni hafa um 250-300 milljóna króna jákvæð EBITDA áhrif á afkomu Skeljungs á ársgrundvelli.

„Kaupin eru liður í stefnu okkar að minnka vægi í sölu eldsneytis m.a. með því að fjárfesta í einingum ótengdum eldsneytissölu, sækja fram og auka þjónustuframboð til viðskiptavina okkar á sviði heilsu og heilbrigði. Hækkandi aldur þjóðarinnar ýtir undir ýmsar áskoranir og tækifæri, eitt af þeim er vöxtur og þróun lyfjamarkaðarins og ýmissa heilsutengdra vöruflokka. Hluti af stefnu félagsins er að koma til móts við neytendur og einfalda líf þeirra á ferðinni en staðsetningar Orkunnar henta vel fyrir bílaapótek. Við sjáum mörg tækifæri í því að auka framboð bílaapóteka í framtíðinni á þjónustustöðvunum okkar og trúum því að neytendur muni taka vel á móti þeim,“ segir Árni Pétur Jónsson , forstjóri Skeljungs, í fréttatilkynningunni.