*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 15. júní 2021 09:24

Skeljungur eignast Gló að fullu

Berglind Jónsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Gló samhliða kaupunum.

Ritstjórn
Berglind Jónsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Gló
Aðsend mynd

Skeljungur keypti nýlega allt hlutafé í Gló veitingum ehf. og hefur tekið við rekstri félagsins. Fyrir kaupin átti Skeljungur fjórðungshlut í Gló. Gló vörur, svo sem skálar, vefjur, safar og grautar eru nú til sölu á þremur þjónustustöðvum Orkunnar; við Vesturlandsveg, í Suðurfelli og Hagasmára.

Berglind Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Gló veitinga ehf. samhliða kaupunum. Berglind hefur undanfarið ár starfað við rekstrar- og markaðsmál hjá Metro og þar áður hjá Dagný og Co. samhliða námi.  Hún er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Gló veitingar hafa leikið lykilhlutverki í að auðvelda fólki að næra sig og hafa jákvæð áhrif á heilsu fólks. „Ég sé mörg tækifæri fyrir þetta flotta vörumerki og hlakka til að takast á við þetta spennandi verkefni", segir Berglind í tilkynningunni.

„Orkan hyggst leggja aukna áherslu á hollari valkosti á stöðvum sínum og bjóða viðskiptavinum sínum upp á lausnir sem einfalda líf þeirra. Staðsetningar Orkunnar eru góðar við helstu stofnæðar og mun auðvelt aðgengi að þeim stytta þann tíma sem fólk þarf að eyða í að grípa sér eitthvað hollt og gott á ferðinni,"  segir Karen Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Skeljungs, í tilkynningunni.

Stikkorð: Skeljungur Gló