Skeljungur hefur ákveðið að falla frá því að nýta sér hlutabótaleið stjórnvalda og mun félagið endurgreiða Vinnumálastofnun allan kostnað sem féll til vegna starfsmanna fyrirtækisins. Verða starfsmennirnir færðir í 100% vinnu á ný frá og með 1. maí sl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skeljungi.

Undanfarið hefur nokkuð verið fjallað um, með gagnrýnum hætti, nokkur stór skráð fyrirtæki sem ákveðið hafa að nýta sér umrætt úrræði stjórnvalda og það sett í samhengi við arðgreiðslur. Í kjölfar gagnrýninnar hefur Skeljungur, líkt og áður segir, hætt við að nýta sér úrræðið.

Tilkynninguna, sem er stutt og laggóð, má sjá í heild hér að neðan:

Í fjölmiðlum í dag hefur verið fjallað um kostnað ríkissjóðs vegna þeirra starfsmanna Skeljungs sem fengu hlutabótagreiðslur í apríl. Að athuguðu máli telur Skeljungur að ekki hafi verið rétt að nýta úrræðið.  Skeljungur mun því bjóða starfsmönnum sínum 100% vinnu frá og með 1. maí og endurgreiða Vinnumálastofnun allan þann kostnað sem til féll vegna starfsmanna Skeljungs í aprílmánuði.   Allir starfsmenn Skeljungs hafa nú verið færðir í 100% vinnuhlutfall og munu því ekki sækja frekari bætur til Vinnumálastofnunar.