*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 24. apríl 2019 17:22

Skeljungur hækkar mest tvo daga í röð

Langmestu viðskiptin voru á ný með bréf Marel, en Reitir voru einnig í miklum viðskiptum í kauphöllinni í dag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,06%, upp í 1.941,27 stig en heildarviðskipti dagsins námu 2,2 milljörðum króna.

Skeljungur hækkaði mest, eða um 2,82% í 165 milljóna króna viðskiptum og fóru bréfin upp í 8,40 krónur. Hækkuðu bréf félagsins einnig mest í gær en eins og Viðskiptablaðið sagði þá frá hefur 365 aukið við hlut sinn í félaginu.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Marel, eða um 1,53%, upp í 530 krónur, í 840 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru mestu viðskiptin með bréf í einu félagi. Næst mestu viðskiptin voru með bréf Reita, eða fyrir 331 milljón króna, og hækkuðu þau í þeim um 0,91%, upp í 77,40 krónur.

Mesta lækkunin var á gengi bréfa Kviku banka, eða 1,99% í 41 milljóna króna viðskiptum og nemur gengi þeirra nú 11,58 krónum. Bréf Vís lækkuðu svo næstmest, eða um 1,26%, niður í 12,55 krónur, í 62 milljóna króna viðskiptum.

Evran styrktist minnst

Gengi íslensku krónunnar veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, nema þeirrar sænsku og norsku, en sú síðarnefnda veiktist um 0,25% gagnvart íslensku krónunni og fæst hún nú á 14,073 íslenskar.

Svissneski frankinn styrktist mest gagnvart íslensku krónunni, eða um 0,63%, og fæst hann nú á 118,98 krónur, bæði danska krónan og evran hækkuðu minnst gagnvart krónunni, eða um 0,15%. Fæst sú danska nú á 18,154 krónur en evran á 135,55 krónur.

Stikkorð: Marel Skeljungur Reitir VÍS Kvika banki